Tilkynningar

19. júní 2014

Beiðni frá Laxfiskum, sem rannsakar lífríki Úlfljótsvatns og Þingvallavatns:

Líta þarf vel eftir örmerktum urriðum þ.e.a.s. fiskum sem veiðiuggann vantar á og reyndar örmerktum bleikjum einnig því þær hafa einnig verið merktar með örmerkjum. Önnur fiskmerki eru vel sjáanleg ef frá eru talin rafkennin.
Mikilvægar upplýsingar um vöxt og dreifingu geta fengist frá merkingu þessara náttúrulegu seiða urriða og bleikju sem merkt voru á uppvaxtarsvæðum sínum og reyndar hafa slíkar upplýsingar ekki verið í boði áður.
Því skiptir miklu að skoða vel hvort veiðiugga vanti á uppvaxandi fisk sem veiðist og skila inn trjónu (snoppu) þeirra svo sem lýst er í leiðbeiningum þar að lútandi.
Fiskar frá þessum seiðamerkingum á svæðunum sem skilað geta fiski í veiði gætu verið á stærðarbilinu allt frá seiðastærð og upp í 40-50 cm þeir lengstu. Vinsamlega lítið því eftir merktum smáfiski, þau gögn geta verið mjög spennandi.
Tenglar á leiðbeiningar Laxfiska vegna merkjaskila má sjá hér og hér.

 

16. júlí 2012

Dagana 20.-29. júlí verður haldið landsmót skáta á Úlfljótsvatni í tilefni 100 ára afmælis skátastarfs á Íslandi. Búast má við mikilli umferð á og við vatnið.

24. janúar 2012

Í kvöldfréttum RÚV 20. janúar sl. um skýrslu Landsvirkjunar um DDT sem dreift var í og við Úlfljótsvatn á árunum 1957 og 1958 er m.a. viðtal við formann Veiðifélags Úlfljótsvatns. Í inngangi fréttar RÚV er sagt að fullyrt sé að fiskurinn hafi orðið bragðvondur í nokkur ár eftir að eitrinu var dreift. Viðtalið með fréttinni var síðan klippt þannig að mögulega mætti misskilja á þann hátt að fiskurinn væri enn bragðvondur og jafnvel óætur eftir öll þessi ár. Tekið skal fram til áréttingar að fiskurinn í Úlfljótsvatni bragðast alveg með ágætum í dag og hefur gert lengi.

21. janúar 2012

Á dögunum fékk Veiðifélag Úlfljótsvatns veður af skýrslu Landsvirkjunar, Varnarefnið DDT gegn mývargi við Steingrímsstöð – Mat á mengun svæðisins, sem gefin var út í október sl. Í skýrslunni er greint frá notkun DDT við Efra-Sog og Kaldárhöfða á árunum 1957 og 1958 þegar Steingrímsstöð var í byggingu en eitrið var notað til að eyða hinum skæða mývargi sem hrjáði aðkomna byggingaverkamenn stöðvarinnar. Skýrslan er mikil og um margt fróðleg og verður hér stiklað á því helsta en hvatt er til lesturs skýrslunnar sem nálgast má hér (pdf. 12,1Mb).

7. júlí 2011

Veiðifélaginu barst skýrsla um fiskirannsóknir í Sogi og þverám þess árið 2010.  Sjá skýrslu. (ptf.  5Mb)

8. júlí 2010

Í dag hringdi maður úr bát á Úlfljótsvatni eftir aðstoð Neyðarlínunnar þar sem mótor hans hafði bilað. Bæði þyrla og björgunarsveit voru kallaðar á staðinn. Sem betur fer fór allt vel. Hins vegar er rétt að minna á að óheimilt er öðrum en veiðirétthöfum að hafa mótorbát á vatninu. Einnig skal ávallt hafa í huga að gæta varúðar á vatninu og meta aðstæður eftir veðri, en mikill vindur var á Úlfljótsvatni í dag. Hefði enginn átt að fara út á vatnið við þessar aðstæður.

20. febrúar 2010

Björgunarfélag verður með æfingar á vatninu í dag.

Auglýsingar
%d bloggurum líkar þetta: