Fréttir

Breyta veiðireglum vegna urriðadráps

Uppi eru hugmyndir um að leyfa einungis fluguveiði á stórurriða í Þingvallavatni í maímánuði og veiddum urriða verði sleppt. Þjóðgarðsvörður segir að hegðun „veiðisóða“ verði kveðin niður. Hleypt verður lífi í Veiðifélag Þingvallavatns.
NÁTTÚRA:
Veiðireglum fyrir landi þjóðgarðsins á Þingvöllum verður breytt til að stemma stigu við drápi á stórurriða í vatninu. Uppi eru hugmyndir um að einungis verði leyft að veiða á flugu í maímánuði og skylt að sleppa öllum urriða. Veiðivarsla verður aukin og hert með auknum fjárveitingum.
„Við sjáum fyrir okkur að maí verði mánuður áköfustu stangveiðimannanna. Krakkar eru enn í skólum á þessum tíma og fjölskyldur nýta frekar sumarmánuðina við vatnið þegar við opnum aftur fyrir alla almenna veiði,“ segir Ólafur Örn Haraldsson, þjóðgarðsvörður á Þingvöllum.
Ólafur nefnir átak frá fyrra ári þegar hópur sjálfboðaliða tók að sér veiðivörslu við vatnið á nóttunni. Vilji er til þess að þetta samstarf verði endurvakið í sumar og fleiri áhugasamir kallaðir til samstarfs, meðal annars meðlimir í Continental Trout – Ísland (CTCF), verndarsjóði villtra urriðastofna, sem einmitt gengu á fund þjóðgarðsvarðar á fimmtudag og kynntu hugmyndir sínar og þrýstu á um bætta umgengni við þennan einstaka og viðkvæma stofn urriða.
Helgi Guðbrandsson, talsmaður CTCF, segir að þjóðgarðsvörður og hans menn hafi tekið vel í tillögur um verndun urriðans og breyttar veiðireglur fyrir landi þjóðgarðsins. „Ég held að allir séu búnir að fá nóg af þessari umgengni við vatnið undanfarin ár. Það er ekkert eðlilegt við það að menn séu að drepa urriða eins og þeir geta borið.“
Ólafur segir hertar reglur ekki koma til af góðu. Allt of algengt sé að einstaka veiðimenn drepi fjölda urriða og við því verði að bregðast í ljósi þess að stofninn er nú að braggast eftir að hafa verið mjög fáliðaður um langt skeið.
„Því er ekki að leyna að stöku veiðimenn bera enga virðingu fyrir þessum einstaka dýrgrip sem Þingvallavatn er. Ég vil kalla þessa menn veiðisóða sem koma óorði á allan hópinn og spilla ánægju allra sem vilja njóta útiveru við vatnið. Við erum ákveðin í því að kveða þetta niður,“ segir Ólafur sem tekur skýrt fram að ekki verði gengið á fornan og nýjan rétt manna við vatnið – veiðirétt sem annan rétt.
Eitt af því sem verður gert er að hleypa lífi í Veiðifélag Þingvallavatns, en þörf er á að bregðast við mikilli fjölgun veiðimanna við vatnið á síðustu tveimur árum.
(Fréttablaðið, 8. febrúar 2014)

____________________________________________________________________

Virkjun gekk nærri stórurriðanum

Þekktasti stofn stórurriðans tengdist Efra-Sogi sem var hið náttúrulega útfall Þingvallavatns til suðurs. Helstu ástæður þess að Efra-Sog fóstraði stærsta urriðastofn vatnsins voru mikill straumur og ármöl sem mynduðu góð skilyrði fyrir hrygningu urriðans og uppvöxt bitmýs sem urriðinn nærðist á. Þegar Steingrímsstöð var reist árið 1959 við suðurenda Þingvallavatns eyðilögðust stærstu hrygningarstöðvar urriðans með þeim afleiðingum að stærsti urriðastofninn í vatninu er svo gott sem horfinn.
Á undanförnum árum hefur Jóhannes Sturlaugsson hjá Laxfiskum haft veg og vanda af rannsóknum á lífsháttum urriðans, en hrygningarstöðvar stofnsins sem nú er að ná sér á strik eru í Öxará.

Auglýsingar
%d bloggurum líkar þetta: