Birt af: ulfljotsvatn | 01/02/2010

Um Úlfljótsvatn

Úlfljótsvatn er um 3,6 km2 að stærð og um 4 km langt. Yfirborð þess er í um 81 m.y.s. og er það 20,5 m. lægra en yfirborð Þingvallavatns. Mesta mælda dýpi er um 35 m. en meðaldýpi er 4,7 m. Í Úlfljótsvatni eru bleikja, urriði og hornsíli. Útlitsafbrigði bleikju eru fjögur, þau sömu og í Þingvallavatni; bleikja (kuðungableikja, netbleikja), djúpbleikja (sílableikja), gjámurta (depla, svartmurta, dvergbleikja) og murta.

Í útliti svipar sílableikju og murtu til vatnableikju eins og hún gerist víðast hvar annars staðar með fremur oddmjótt trýni og er neðri skolturinn jafnlangur eða litlu styttri en sá efri. Eyruggarnir eru að jafnaði litlir. Utan hryggningartímans eru þessir fiskar nokkuð dökkir á bakið, gráir eða grágrænir, en annars eru þeir frekar ljósir á lit, gjarnan silfurgljáandi á hliðum og settir ljósum deplum. Murtuhrygnan breytir lítt eða ekki um lit meðan á hrygningu stendur en hængurinn, sem stendur lengur við á hrygningarsvæðunum eða riðunum, dökknar yfirleitt nokkuð og í sumum tilfellum vottar fyrir svokölluðum fingraförum sem eru röð dökkra bletta eða þverráka aftur eftir hliðum laxfiskaungviðis. Þegar dregur að hrygningu roðnar sílableikjan á kviðinn og dökknar mikið á höfði, hliðum og baki.

Höfuðlag kuðungableikju og dvergbleikju er allfrábrugðið því sem gerist almennt um bleikju. Höfuðið er áberandi snubbótt, skoltarnir stuttir og að jafnaði skagar efri kjálkinn vel fram yfir þann neðri þannig að fiskarnir eru áberandi undirmynntir. Eyruggarnir eru hlutfallslega stórir. Utan hrygningartíma er kuðungableikjan dökk á baki, silfruð á hliðum og ljós á kviðinn. Þegar dregur að hrygningu dökkna fiskarnir á hliðum en kviðurinn verður appelsínugulur. Dvergbleikja er dökk, oft brúnleit. Hliðarnar eru alsettar gulleitum, frekar óreglulega löguðum blettum og gjarnan slær á fiskinn gullnum gljáa í stað silfurgljáans sem einkennir hin afbrigðin. Dvergbleikjan heldur fingraförum alla ævi og almennt má segja að hún haldi í seiðaeinkennin hvað lit og lögun snertir. Misjafnt er hve mikið dvergbleikjan breytir um lit við kynþroska. Í sumum tilfellum er um litlar breytingar að ræða en til eru dæmi um að fiskarnir verði kolsvartir.

Í Úlfljótsvatn rennur úr Þingvallavatni gegnum Steingrímsstöð og farveg Efra-Sogs og úr því rennur um Ljósafossvirkjun til Sogsins. Við virkjunarframkvæmdir urði breytingar á Úlfljótsvatni og þ.á m. fiskistofnum þess.

Sogið á upptök sín í útfalli Þingvallavatns og rennur til Hvítár og myndar þar með henni Ölfusá. Í Soginu eru 3 vatnsaflsvirkjanir sem teknar voru í notkun á árunum 1937 til 1959. Vegna vatnsmiðlunar eru nokkrar vatnshæðar- og rennslisbreytingar í vatninu og rof í vatnsbökkum. Mikið gegnumstreymi er um vatnið en helmingunartími þess er um 1 sólarhringur.

Elst virkjana er Ljósafossstöð en með henni var Ljósifoss, sem um rann úr Úlfljótsvatni, virkjaður. Byggingartími virkjunarinnar var á árunum 1935-1937 en virkjunin var síðar stækkuð 1944. Virkjunin nýtir 17 m fallhæð í Sogi við Ljósafoss en stífla á fossbrúninni hækkaði vatnsborð þar um 4 metra. Með virkjuninni hækkaði vatnsborð Úlfljótsvatns um 1 meter og stækkaði þar með vatnið um 0,6 km2. Líklegt má telja að virkjunin hafi valdið eyðileggingu á hrygningar- og uppeldisskilyrðum urriðans, bæði vegna minni straums, en urriðinn þarf straumvatn til hrygningar, en eins vegna stíflugerðarinnar sjálfrar. Talið er að þar hafi efalaust verið mikil framleiðsla af bitmýi sem hvarf samfara hækkun vatnsborðs og minni straumhraða.

Neðan við Ljósafossvirkjun er Ýrufossvirkjun en hún virkjar 38 m fallhæð Ýrufoss og Kistufoss ásamt flúðum og hávöðum. Byggingartími hennar var á árunum 1950-1953.

Síðast var Efra-Sogið, milli Þingvallavatns og Úlfljótsvatns, virkjað með Steingrímsstöð sem byggð var á árunum 1957-1959. Stíflan var byggð í náttúrulegu útrennsli Þingvallavatns þar sem vatn féll til farvegs Efra-Sogs. Með virkjuninni var lokað fyrir rennsli úr Þingvallavatni um farveg Efra-Sogs sem leiddi til þess að bitmýið, sem þar lifði á lífrænu reki og var mikilvæg fæða fyrir fisk, hvarf. Stórri bleikju fækkaði ásamt því að urriðinn í Úlfljótsvatni nær hvarf og kippt var stoðum undan tilvist urriðans sem hrygndi í útfalli Þingavallavatns. Fullyrt er að við framkvæmdir stöðvarhúss hafi orðið veruleg röskun á botninum við útfallið þar sem urriðinn átti mikilvægan hrygningarstað. Einnig varð óhapp á byggingartímanum 1959 sem hafði mikil og slæm áhrif á lífríkið. Þá brast varnarstífla sem olli miklu flóði í Sogið þar sem rennsli tvöfaldaðist og vatnsyfirborð Þingvallavatns lækkaði um 1,6 metra. Annað, og ekki síður alvarlegra var, að á meðan byggingarframkvæmdum stóð var skordýraeitur (DDT) sett á bakka og í árvatnið við Efra-Sog. Tilgangurinn var að eyða bitmýi sem pirraði aðkomna verkamenn. Það bar tilætlaðan árangur og mýinu fækkaði en einnig minnkaði fæðuframboð fiska, stofninn féll og til eru sögur um vanskapaða fiska. Segja heimamenn fiskstofninn aldrei hafa náð sér síðan, bæði hvað varðar magn, stærð og bragð.

Á síðustu misserum hefur þó vatn runnið að nýju um farveg Efra-Sogs, mýið aukist og að sama skapi fæða fyrir fiskinn. Magn mýsins nú er þó engan vegin sambærilegt við það sem það var fyrir virkjun. Ýmsar gamlar sagnir eru til sem segja að áður hafi mý verið það mikið að svo væri sem ský drægi fyrir sólu þegar mýþyrping fór hjá, mýi mokað í skófluvís úr gluggakistum og við útidyr og búpeningi haldið innanhúss þegar verst lét. Heimamenn voru þó öllu vanir og tóku náttúrunni eins og hún er.

Talað er um tvær mýgöngur að jafnaði við Úlfjótsvatn; sú fyrri og stærri um Jónsmessuleytið en hin minni í lok ágúst. Það fer þó eftir veðurfari á hverjum tíma, þegar lirfur bitmýsins koma upp á yfirborðið og verða að flugum, hversu stór gangan verður.

Heimildir:

Magnús Jóhannsson og Benóný Jónsson. 2000. Úlfljótsvatn. Fiskirannsóknir árið 2000,Veiðimálastofnun, VMST-S/00007
Magnús Jóhannsson, Guðni Guðbergsson og Sigurður Guðjónsson. 1996. Sog, lífríki þess og virkjanir. Veiðimálastofnun, VMST-S/96002
Pétur M. Jónasson og Páll Hersteinsson  Þingvallavatn – Undraheimur í mótun. Mál og menning 2007.

Fuglar í landi Úlfljótsvatns Fuglar í landi Úlfljótsvatns II_Jóhann Óli Hilmarsson 2005 (PDF  211Kb)

Aðalskráning fornleifa í landi Úlfljótsvatns Fornleifar Úlfljótsvatni_I_Bjarni F. Einarsson 2005 (PDF 417kb)

Fornleifaskráning í landi Úlfljótsvatns Fornleifar Úlfljótsvatni_II_Bjarni F. Einarsson 2005 (PDF 851kb)

Fornleifaskrá í landi Úlfljótsvatns 1. hluti Fornleifaskrá Úlfljótsvatn_I_Bjarni F. Einarsson 2005 (PDF 110Kb)

Fornleifaskrá í landi Úlfljótsvatns 2. hluti Fornleifaskrá Úlfljótsvatn_II_Bjarni F. Einarsson 2005 (PDF 4.156Kb)

Flokkar